Gangan hefst við Sendiráð Íslands. Heyrum um pakkhúsið sem auk sendiráðsins hýsir Menningarhús Íslands, Færeyja og Grænlands (Norðurbryggju). Verslunarsagan er rifjuð upp og svæðið skoðað, heyrum af hinum víðfræga veitingastað Noma sem hóf göngu sína í húsinu og starfrækir fleiri veitingastaði á svæðinu. Bryggjusvæðið sem áður var kennt við lýsistunnur og tugthús er í dag hin mesta lúxusstaðsetning og hér má finna íbúðir sem eru með þeim dýrustu á Kaupmannahafnarsvæðinu.
Höldum frá bryggjunni að nýrri göngu- og hjólabrú, Innri hafnarbrúnni, sem tengir Kristjánshöfn við Nýhöfn. Frá brúnni virðum við fyrir okkur höfnina og heyrum af þeim fjölmörgu breytingum sem átt hafa sér stað á liðnum árum; Borgarleikhúsið, Ofelia ströndin, virðum fyrir okkur Óperuhúsið og Pappírseyjuna sem mun taka miklum breytingum á næstu árum, sem og matarmarkaðinn sem fyrir enda brúarinnar.
Héðan liggur leiðin að Kristjaníu, fríríkisins margrómaða. Förum inn um bakdyrnar, röltum eftir aðalgötu svæðisins og heyrum af lífinu á þessum afar sérstaka og umdeilda stað. Áfram heldur förin fram hjá kvennafangelsinu agalega og að Kirkju frelsara vors sem einkennist af afar fallegum snúnum turni. Að lokum liggur leið okkar meðfram fallegum síkjum Kristjánshafnar að nýrri brú eftir Ólaf Elíason, sem nefnist Hringbrúin, Cirkelbroen. Hér lýkur ferðinni, en einnig er möguleiki á að heimsækja eina af elstu krám Kristjánshafnar, aðeins steinkast frá brúnni, en í Rabes Have, sem hýsir samnefnda krá, var stunduð brennivínsframleiðsla frá 1678.
Ferðin tekur um 1,5 klst, að undantalinni kráarheimsókn í lokin.